Gott að vita áður en þú kemur í myndatöku

Við bókun

  • Það fyrsta sem ég vil minna á er að lesa skilmálana sem eru hér á heimasíðunni:

https://www.malen.photography/skilmalar

  • Ég virði það ef þú vilt ekki að ég birti myndir af þér eða þínum á netið - en þú þarft þá að láta mig vita af því fyrir myndatökuna.

  • Ég vil líka biðja þig að láta mig vita með eins miklum fyrirvara og þú getur ef þú eða einhver í fjölskyldunni er lasin og það þarf að fresta myndatökunni.

  • Hér má finna verðlistann yfir pakkana sem ég er með í boði:

https://www.malen.photography/verdlisti

Fatnaður

  • Ég fæ oft spurningar um hverju á að klæðast í myndatökum. Auðvitað skiptir mestu máli að klæðast einhverju sem þér líður vel í. Mér finnst alltaf koma vel út þegar fólk er í frekar jarðbundnum litum, þá er ég ekki endilega að meina bara í brúnu eða hvítu, heldur frekar að reyna að forðast eitthvað sem þú heldur að sé mjög æpandi á myndum (eins og barnaföt með myndum eða flóknu mynsti framan á). Snjallúr geta líka verið fyrir á myndum.

  • Það er ekkert mál að koma með fleiri en eitt “outfit“ ef þú vilt prufa eitthvað mismunandi.

  • Ef þú ert að koma í meðgöngumyndatöku er þér velkomið að skoða meðgöngufötin sem ég er með í stúdíóinu og fá í láni.

  • Ef þú ert að ákveða föt fyrir fjölskylduna er gott að hafa í huga að allir passi vel saman á mynd.

  • Sumir vilja að myndir endist lengi, og eru þá frekar í klassískari fötum, en öðrum finnst gaman að grípa tíðarandann og vera þá meira “trendy“ - mér finnst bæði skemmtilegt en mæli með að spá í því hvor þú hallast meira að.

Myndatakan sjálf

  • Það er alltaf best að koma vel hvíldur og vel nærður í myndatöku.

  • Þó getur allskonar komið uppá, sérstaklega hjá fjölskyldufólki, og þessvegna legg ég mikið upp úr því að hafa góða og rólega stemningu í stúdíóinu. Ég er með vatn í boði(stundum snarl), það er róleg tónlist og ég er með leikföng fyrir krakkana til að skoða.

  • Ef nýburar eru órólegir er ekkert mál að taka smá pásu, stundum til að fá að drekka eða fá nýja bleygju. Sama með eldri krakka ef þau eru illa upplögð eða með litla þolinmæði fyrir myndatöku geta þau tekið leikpásu. Mín reynsla er að það er líka sterkur leikur að vera með smá “treat“ fyrir þau með í nesti - smá verðlaun geta yfirleitt náð fram brosi fyrir nokkrar myndir.

  • Mér finnst svo gaman að taka á móti fólki í myndatöku. Þetta er oft falleg og skemmtileg samverustund (þar sem símarnir fá pásu) og við sköpum minningar saman. Markmiðið er að allir njóti sín.

Eftir myndatökuna

  • Fljótlega eftir myndatökuna sendi ég þér óunnu myndirnar (ég set lítið vatnsmerki yfir til að koma í veg fyrir að fólk birti óunnar myndir). Þú gefur þér tíma til að fara í gegnum myndirnar, ákveða hversu margar þú vilt og sendir mér svo nafnið á myndunum sem þú vilt kaupa. Það tekur mig yfirleitt ekki nema nokkra daga að vinna myndirnar en það fer mikið eftir árstíma eða hvað það er mikið að gera hjá mér - ég vinn semsagt alltaf myndirnar, og skila þeim frá mér, í réttri tímaröð á tökunum.